Monday 20 August 2012

Dæmigert Hollywood.



Les intouchables er hjartnæm frönsk mynd um ríkann gaur í hjólastól sem verður besti vinur stuðningsfulltrúa síns sem er úr gettóinu. Þrátt fyrir gjörólíkan uppruna læra þeir að meta hvorn annan og enda á að kenna hvor öðrum sitthvað um lífið. Hér er á ferðinni mannleg saga um vináttu og samhjálp. Hákarlarnir í Hollywood mættu læra af frökkum og framleiða eitthvað svona.

Já, nema þeir eru alltaf að því.
Driving Miss Daisy, The Blind Side, Clara’s Heart, Finding Forrester, The Odd Couple, Dangerous Minds og milljón aðrar.

Mér fannst Les intouchables frábær mynd. Ég hló, ég grét. En ég stóðst samt ekki mátið að sýningu lokinni að kalla hana “dæmigert Hollywood”. Því hún er það. Hún inniheldur öll óskarsverðlauna-trikkin í bókinni; andstæður laða, bitur maður lærir lexíu og mína uppáhalds klisju, töfranegrann (afsakið orðalagið, en svona orðaði Spike Lee þetta).
Semsagt, þessi mynd mun vinna Best Foreign Picture á óskarnum næsta ár. Enda falleg og hjartnæm. En ef myndin væri amerísk, og skartaði t.d. Dustin Hoffman og Jamie Foxx í aðahlutverkum, væri myndin ekki hjartnæm. Hún væri væmin.

Svipað og þegar foreldrar mínir detta í skandinavíska sápu. Ég man norska sápu sem hitti í mark hjá þeim. Ég man ekki hvað hún hét en þátturinn gerðist í smábæ á lítilli eyju og fangaði gjörsamlega krúttulegan sjarma frænda okkar. Ef þættirnir hefðu verið amerískir hefðu foreldrar mínir ekki litið við þeim, enda væri engin munur á þeim og One Tree Hill. En klisjur eru kannski ekki jafn klisjukenndar þegar þær eru ekki á bandarísku.

Þetta Evrópu-snobb okkar er alls ekki af hinu slæma. Það er dásamlegt þegar miðaldra fólk hópast í bíó og styrkir iðnaðinn. Mér finnst bara pínu fyndið þegar ein mynd er einhvernveginn virtari og dýpri en aðrar, bara af því að hún er frá einu landi en ekki öðru. Kanar eru fremstir í lágmenningu því þeir hafa efni á að framleiða meira rusl en aðrir. En frakkar gera sitt besta. Hinar bráðskemmtilegu (frönsku) Taxi og Transporter seríur eru jafnvel heilalausari en Die Hard og Bad Boys. Á góðum degi er Frakkland meira Hollywood en Hollywood.

Og á meðan Evrópa framleiðir amerískar klisjur er Hollywood byrjuð að brjóta þær. Núna nýlega sá ég sósíal realíska fantasíu um sérvitran milljarðamæring sem verður ástfanginn af innbrotsþjófi í miðju stéttastríði. Já ég er að tala um The Dark Knight Rises.


Hulli

No comments: