Tuesday 24 July 2012

Movies don't create psychos

“Altamont nördavorsins”. Það var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég heyrði af skotárásinni í Aurora. Þá er ég að vísa í Stones tónleikana í Altamont árið 1969 sem enduðu í ofbeldi og urðu síðar einskonar táknmynd endaloka hippatímabilsins. Nördavorið kalla ég síðastliðin áratug eða svo, en síðan Sam Raimi sendi frá sér Spider-Man hefur nördakúltúr yfirtekið sjónræna miðla og allt í einu varð gaman að vera nörd.
Vissulega er það óviðeigandi að óttast um Batmanninn sinn þegar fólk er að deyja. En ég gerði það samt. “Greit" hugsaði ég, "Nú munu einfaldar sálir skera upp herör gegn ofbeldi í kvikmyndum”. Alveg eins og þær gerðu gegn Marilyn Manson í kjölfar Columbine morðanna. Já það er nefnilega ástæðan fyrir byssuofbeldi í dag. Tónlist og tæknibrellur.
Nei, kvikmyndir valda ekki skotárásum frekar en hellamálverk ollu vísundaveiðum. Nauðgarinn sem hermdi eftir Clockwork Orange var skíthæll áður en hann fór í bíó. Natural Born Killers eftirhermurnar voru sturlaðir áður en þeir ýttu á play. “Movies don't create psychos. Movies make psychos more creative!” sagði annar morðinginn í Scream, og er setning sem ég nota gjarnan í þessum þreyttu rökræðum. En ég held að hún eigi ekki við Aurora morðin (eða Batman morðin eins og margir fjölmiðlar erlendis kalla þau til að gera fréttina meira djúsí *). Ég held ekki að morðinginn hafi verið undir áhrifum frá Batman þrátt fyrir að hann litaði á sér hárið rautt eins og Jókerinn, því að:
  1. Jókerinn er með grænt hár, ekki rautt! DUH!
  2. Fjöldamorðingjar eru ekki einhverjir flóknir ofurskúrkar með abstrakt glæpahneigð. Fjöldamorðingjar eru aumingjar.
Fjöldamorðingjar eru ekki djúpir snillingar með áhuga á óperu og vínum eins og Hannibal Lecter. Þeir eru lúserar sem sitja heima hjá sér og vorkenna sjálfum sér því enginn vill vera vinur þeirra. Svo einn daginn, sökum örvæntingar og geðröskunar, fatta þeir að eina leiðin til að öðlast athygli er að drepa fólk. Því fleira því betra. Þú færð að vera guð í einn dag og svo munu fjölmiðlar tönslast á þér stanslaust eftir það. Þú hættir að vera nobody og verður allt í einu dularfullt skrímsli. Nema þú ert ekki skrímsli. Þú ert sorglegur aumingi sem keypti byssur á netinu.**



En ég hljóp á mig. Nördavorinu er ekki lokið. Þessi öld, upplýsingaöldin, er eitt stórt nördavor. Útópistinn í mér veit að fólk skilur muninn á staðreyndum og skáldskap, og kann að meta bæði. Ofurhetjusögur eru ekki ofbeldis-lofsöngvar heldur dæmisögur um kosti og galla mannkyns. Kvikmyndir og myndasögur eru sjónrænir miðlar. Allar góðar sögur innihalda baráttu og helsta leiðin til að túlka baráttu sjónrænt er með aktúal baráttu. Ég elska ofbeldi í kvikmyndum, því þar á það heima.
Að segja að morðingjar horfa of mikið á kvikmyndir er bjánalegt. Ég vildi óska að morðingjar horfðu meira á kvikmyndir. Þá myndu þeir kannski fatta að góði kallinn vinnur alltaf í lokin.



Hulli



* Charlie Brooker segir athyglisverða hluti um byssubrjálæðingafjölmiðlaumfjöllun hér.
** Ég gæti tuðað endalaust um hvað byssur eru glataðar, en ég læt Batman um  það á meðfylgjandi mynd.

No comments: