Friday 23 August 2013

Batfleck*



Ben Affleck er næsti Batman. Mín fyrstu viðbrögð voru “Æ fokk”. Sú tilfinning varði í svona þrjár sekúndur. Því ég mundi að ég er löngu hættur að hata Ben Affleck.
Ókei, ég var reyndar að vona að Josh Brolin myndi taka þetta. En haltu á ketti hvað nördar eru að eipa yfir þessu vali. Nei, ég tek þetta aftur. Því ég hef á tilfinningunni að flestir sem kvarta eru ekki einu sinni alvöru nördar. Nördar vita að Batman er allskonar.
Það eru til fleiri batmenn en fasíska Frank Miller útgáfan og grúví Adam West útgáfan. Leðurblakan hefur ótal blæbrigði. Eins og er bent á í þessu frábæra atriði úr Batman: The Brave and the Bold:





En Affleck er ömurlegur leikari!
Affleck er fínn. Hann var fínn í Dogma, Jay & Silent Bob Strike Back, Mallrats, Shakespeare in love og Extract.

En það voru grínhlutverk! Við viljum ekki gamanleikara!
Michael Keaton er gamanleikari. Allir mótmæltu honum líka á sínum tíma.

En Affleck er ógeðslega væminn rom-com leikari!
Það var Heath Ledger líka.

En Affleck hefur leikið ofurhetju áður! Óréttlátt!
Chris Evans lék Human Torch tvisvar áður en hann lék Captain America.

En Daredevil var drasl! Ég vil ekki að Batman verði annar Daredevil!
Daredevil var ekki Affleck að kenna. Hún var leikstjóranum að kenna. Tékkið á Mark Steven Johnson á IMDb. Hann hefur ekki gert eina góða mynd.

En… en… en…
Já ókei ég skil. Eins og ég sagði, hefði ég viljað sjá miðaldra Josh Brolin týpu. Brolin er rugged og edgy. Affleck er tyggjó. Ég skil. Hann er ekki kúl. En ofurhetjur eru ekki kúl. Þær eru hallærislegar. Það er einmitt það sem gerir þær kúl. Það að þær komast upp með að vera hallærislegar. Ég meina, hafiði séð Thor?

Mér er hugsað til Coldplay kenningarinnar.  Hún er svona: Hipsterar og aðrir besserwisserar eru rosalega duglegir við að úthúða hljómsveitinni Coldplay (Einu sinni var það U2). Því að það er svo ógsla mainstream, ófrumleg og ofmetin hljómsveit. Sumir hata Coldplay svo mikið að það er grunsamlegt. “The lady doth protest too much, me thinks" eins og mamma Hamlets sagði. Þetta er ekki ósvipað og þegar hommahatarar reynast síðar meir vera í bullandi afneitun. 

Affleck er Coldplay Hollywoods. Þú værir ekki að mótmæla honum svona mikið ef þú elskaðir hann ekki innst inni.

Ég hefði samt viljað Brolin.




Hulli

PS
Þessi pistill var næstum nefndur Batdeer Games, Batmageddon, Bat Harbour, Batting Amy og Batgli.

Monday 31 December 2012

TOPP 2 LISTI 2012

Hér koma mínir topp 2 listar yfir listaverk ársins 2012.

TOPP 2 KVIKMYNDIR:
NR2: Cabin In The Woods. Drew Goddard.
Scream er ekki lengur aðal póstmóderníska hryllingsmyndin. 
NR1: Beasts Of The Southern Wild. Benh Zeitlin.
Ég hló. Ég grét. Ég langaði í djúpsteiktan krókódíl. 

TOPP 2 MYNDASÖGUR:
NR2: Saga.  Brian K Vaughan & Fiona Staples.
Star Wars fyrir hipstera.
NR1: Nemesis. Mark Millar & Steve McNiven.
Áfram vondi kallinn.

TOPP 2 SJÓNVARP:
NR2: Community. Þátturinn þegar þau eru öll 8 bit tölvuleikjafígúrur.
Kannski síðasta góða árið hjá Community því NBC rak Dan Harmon.
NR1: Doctor Who Christmas Special.
Ian Mckellen talar fyrir mannætusnjókalla og nýja who-stelpan er sæt.

Glelet ár.

Hulli

Monday 20 August 2012

Dæmigert Hollywood.



Les intouchables er hjartnæm frönsk mynd um ríkann gaur í hjólastól sem verður besti vinur stuðningsfulltrúa síns sem er úr gettóinu. Þrátt fyrir gjörólíkan uppruna læra þeir að meta hvorn annan og enda á að kenna hvor öðrum sitthvað um lífið. Hér er á ferðinni mannleg saga um vináttu og samhjálp. Hákarlarnir í Hollywood mættu læra af frökkum og framleiða eitthvað svona.

Já, nema þeir eru alltaf að því.
Driving Miss Daisy, The Blind Side, Clara’s Heart, Finding Forrester, The Odd Couple, Dangerous Minds og milljón aðrar.

Mér fannst Les intouchables frábær mynd. Ég hló, ég grét. En ég stóðst samt ekki mátið að sýningu lokinni að kalla hana “dæmigert Hollywood”. Því hún er það. Hún inniheldur öll óskarsverðlauna-trikkin í bókinni; andstæður laða, bitur maður lærir lexíu og mína uppáhalds klisju, töfranegrann (afsakið orðalagið, en svona orðaði Spike Lee þetta).
Semsagt, þessi mynd mun vinna Best Foreign Picture á óskarnum næsta ár. Enda falleg og hjartnæm. En ef myndin væri amerísk, og skartaði t.d. Dustin Hoffman og Jamie Foxx í aðahlutverkum, væri myndin ekki hjartnæm. Hún væri væmin.

Svipað og þegar foreldrar mínir detta í skandinavíska sápu. Ég man norska sápu sem hitti í mark hjá þeim. Ég man ekki hvað hún hét en þátturinn gerðist í smábæ á lítilli eyju og fangaði gjörsamlega krúttulegan sjarma frænda okkar. Ef þættirnir hefðu verið amerískir hefðu foreldrar mínir ekki litið við þeim, enda væri engin munur á þeim og One Tree Hill. En klisjur eru kannski ekki jafn klisjukenndar þegar þær eru ekki á bandarísku.

Þetta Evrópu-snobb okkar er alls ekki af hinu slæma. Það er dásamlegt þegar miðaldra fólk hópast í bíó og styrkir iðnaðinn. Mér finnst bara pínu fyndið þegar ein mynd er einhvernveginn virtari og dýpri en aðrar, bara af því að hún er frá einu landi en ekki öðru. Kanar eru fremstir í lágmenningu því þeir hafa efni á að framleiða meira rusl en aðrir. En frakkar gera sitt besta. Hinar bráðskemmtilegu (frönsku) Taxi og Transporter seríur eru jafnvel heilalausari en Die Hard og Bad Boys. Á góðum degi er Frakkland meira Hollywood en Hollywood.

Og á meðan Evrópa framleiðir amerískar klisjur er Hollywood byrjuð að brjóta þær. Núna nýlega sá ég sósíal realíska fantasíu um sérvitran milljarðamæring sem verður ástfanginn af innbrotsþjófi í miðju stéttastríði. Já ég er að tala um The Dark Knight Rises.


Hulli

Tuesday 24 July 2012

Movies don't create psychos

“Altamont nördavorsins”. Það var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég heyrði af skotárásinni í Aurora. Þá er ég að vísa í Stones tónleikana í Altamont árið 1969 sem enduðu í ofbeldi og urðu síðar einskonar táknmynd endaloka hippatímabilsins. Nördavorið kalla ég síðastliðin áratug eða svo, en síðan Sam Raimi sendi frá sér Spider-Man hefur nördakúltúr yfirtekið sjónræna miðla og allt í einu varð gaman að vera nörd.
Vissulega er það óviðeigandi að óttast um Batmanninn sinn þegar fólk er að deyja. En ég gerði það samt. “Greit" hugsaði ég, "Nú munu einfaldar sálir skera upp herör gegn ofbeldi í kvikmyndum”. Alveg eins og þær gerðu gegn Marilyn Manson í kjölfar Columbine morðanna. Já það er nefnilega ástæðan fyrir byssuofbeldi í dag. Tónlist og tæknibrellur.
Nei, kvikmyndir valda ekki skotárásum frekar en hellamálverk ollu vísundaveiðum. Nauðgarinn sem hermdi eftir Clockwork Orange var skíthæll áður en hann fór í bíó. Natural Born Killers eftirhermurnar voru sturlaðir áður en þeir ýttu á play. “Movies don't create psychos. Movies make psychos more creative!” sagði annar morðinginn í Scream, og er setning sem ég nota gjarnan í þessum þreyttu rökræðum. En ég held að hún eigi ekki við Aurora morðin (eða Batman morðin eins og margir fjölmiðlar erlendis kalla þau til að gera fréttina meira djúsí *). Ég held ekki að morðinginn hafi verið undir áhrifum frá Batman þrátt fyrir að hann litaði á sér hárið rautt eins og Jókerinn, því að:
  1. Jókerinn er með grænt hár, ekki rautt! DUH!
  2. Fjöldamorðingjar eru ekki einhverjir flóknir ofurskúrkar með abstrakt glæpahneigð. Fjöldamorðingjar eru aumingjar.
Fjöldamorðingjar eru ekki djúpir snillingar með áhuga á óperu og vínum eins og Hannibal Lecter. Þeir eru lúserar sem sitja heima hjá sér og vorkenna sjálfum sér því enginn vill vera vinur þeirra. Svo einn daginn, sökum örvæntingar og geðröskunar, fatta þeir að eina leiðin til að öðlast athygli er að drepa fólk. Því fleira því betra. Þú færð að vera guð í einn dag og svo munu fjölmiðlar tönslast á þér stanslaust eftir það. Þú hættir að vera nobody og verður allt í einu dularfullt skrímsli. Nema þú ert ekki skrímsli. Þú ert sorglegur aumingi sem keypti byssur á netinu.**



En ég hljóp á mig. Nördavorinu er ekki lokið. Þessi öld, upplýsingaöldin, er eitt stórt nördavor. Útópistinn í mér veit að fólk skilur muninn á staðreyndum og skáldskap, og kann að meta bæði. Ofurhetjusögur eru ekki ofbeldis-lofsöngvar heldur dæmisögur um kosti og galla mannkyns. Kvikmyndir og myndasögur eru sjónrænir miðlar. Allar góðar sögur innihalda baráttu og helsta leiðin til að túlka baráttu sjónrænt er með aktúal baráttu. Ég elska ofbeldi í kvikmyndum, því þar á það heima.
Að segja að morðingjar horfa of mikið á kvikmyndir er bjánalegt. Ég vildi óska að morðingjar horfðu meira á kvikmyndir. Þá myndu þeir kannski fatta að góði kallinn vinnur alltaf í lokin.



Hulli



* Charlie Brooker segir athyglisverða hluti um byssubrjálæðingafjölmiðlaumfjöllun hér.
** Ég gæti tuðað endalaust um hvað byssur eru glataðar, en ég læt Batman um  það á meðfylgjandi mynd.

Friday 2 March 2012

Goðin tala dönsku.

Það er góður og gamall íslenskur siður að blogga um hvað allir á Íslandi eru vitlausari en maður sjálfur. Hér kemur mín færsla um hvað við, sem þjóð, ættum að skammast okkar. Ekki fyrir stjórnmálin okkar eða efnahaginn okkar. Heldur fyrir hvað við erum léleg að kaupa dönsku Goðheima-bækurnar eftir Peter Madsen.
Fyrsta bókin, Úlfurinn bundinn (Ulven er løs) kom út 1979. Sama ár var hún þýdd á Íslensku. Almennilegt. Svona á að gera þetta. Á árunum 1980 til 1989 komu svo út fjögur bindi til viðbótar, samtímis á dönsku og íslensku. En svo þorðu íslendingar ekki lengra. Líkt og óttaslegni jötuninn Hýmir, skárum við á línuna, og slepptum Miðgarðsormi aftur í sjóinn. Allt í allt eru bækurnar 15 og við þekkjum bara þriðjung.

Ég hef heyrt tvær kenningar um þetta menningarhneyksli.
A) Að bækurnar seldust ekki nógu vel.
B) Að einhverskonar snobb-elítu-samsæri hafi lokað á allar myndasöguþýðingar af hræðslu við að börnin þeirra yrðu slefandi hálfvitar. (Aðrar evrópskar myndasögur, t.d. Svalur og Valur og Viggó, hurfu líka úr bókatíðindum um svipað leyti).
Ég kaupi ástæðu A frekar, því að money talks and bullshit walks (þó að vanmetnaður fullorðna á gáfnafari barna sé ekkert nýtt). En þetta þýðir að sökin liggur okkar megin. Að íslenskir neytendur kunna ekki gott að meta. Þetta áhugaleysi á eigin sagna-arfi kostaði okkur heil tíu bindi af  þessum einstaka bókaflokki. Við eigum inni Hýmiskviðu, Sörla sögu, Ynglinga sögu, Grímnismál, Skírnismál og sjálf Ragnarök í listilegri útfærslu Peters Madsen. Ef ég hefði vitað þetta hefði ég actually lært heima í dönsku. Better yet, ef þessar bækur hefðu verið kenndar í dönsku, hefði ég actually verið vakandi í tímum.
En með fullri virðingu fyrir þessu hrognamáli, þá er ég þjóðremba þegar kemur að Snorra Eddu. Æsir töluðu íslensku. Guðni kolbeins þýddi fyrstu fimm bækurnar á sínum tíma og ég vil að hann þýði restina. En það er vonarglæta. Síðastliðin tvö jól voru fyrstu tvær bækurnar endurútgefnar. Þær hafa reyndar selst vel. En þetta þýðir að ég þarf að bíða þrettán jól eftir að fá öll herlegheitin. Ef það á annað borð gerist, sem er vonandi. Ég trúi íslendingum alveg til að klúðra þessu aftur. Prove me wrong!
Þar hafiði það. Danir eru að þessu leiti hliðhollari sagna-arfinum en við.  Íslenski bókaneitandi, Ég biðla til þín. Hlauptu og kauptu! Ef ekki, þá fokk jú, íslenski bókaneitandi. Ég skal orða þetta betur: Føkk deg, man.*

Hulli

PS
Þetta er allt til á frummálinu í Bóksölu Stúdenta. Ætli ég verði ekki að fjárfesta í því og kenna mér dönsku um leið. En ég mun að sjálfsögðu líka fá mér þær íslensku. Hverja á fætur annari þangað til að ég verð 47 ára.

*Fyrirgefðu, ég meinti þetta ekki! Ég elska þig. Ekki hætta að kaupa bækurnar mínar.

Monday 27 February 2012

The Unwanted


ég var að grysja DVD safnið mitt og fjarkægði hvorki meira né minna en 27 titla. en hví?
sumt á ég tvennt af. sumt finnst mér lélegt. sumt er ég búinn að sjá of oft. sumt endaði hjá mér fyrir slysni og ég veit ekkert hvaðan kom. en margt gott þarna sko. donnie darko, barton fink, deliverance og eitthvað.

viltu eiga þetta. þú mátt það. fæ ég eitthvað í staðinn? þarf ekki að vera mikið. jógúrtdós þessvegna.

Wednesday 22 February 2012

öskudagur

öskudagur. jakki frá pabba, bleikur gæsapartí-hattur, ruslapoki og veiðihár. þetta er það sem ég sé þegar í kíki útum gluggann hér á laugaveginum. hvað búninga varðar, er þetta unga fólk í dag ekkert að springa úr metnaði. ólíkt þessum: